Markaðir í Bandaríkjunum tóku við sér í dag og hækkuðu. Nasdaq hækkaði um 0,13%, Dow Jones um 0,40% og S&P um 0,45%. Nasdaq markaðurinn opnaði með látum og hækkaði um 1,45 fyrir hádegi. En eftir kl. 13 á staðartíma byrjaði vísitalan að lækka töluvert. Dagurinn endaði eins og fyrr segir í 0,13% hækkun á Nasdaq.

Lánshæfismat ExxonMobil var hækkað í morgun og fjárfestar hvattir til að kaupa í fyrirtækinu. Þetta var tilkynnt snemma í morgun og við það tóku markaðir við sér.

Neikvæðu fréttir dagsins voru þegar Freddie Mac fasteignafyrirtækið tilkynnti um tap upp á rúmlega tvo milljarða bandaríkjadala. Í framhaldi af því tilkynnti fyrirtækið að arður þess til hluthafa yrði allt að 50% minni en gert hafði verið ráð fyrir. Fyrirtækið mun á næstunni ráða til sín ráðgjafa til að fara yfir næstu skref.

Einnig kom fram í dag að væntingar til þjóðhagsframleiðslu Bandaríkjamanna árið 2008 hafi lækkað. Áður var gert ráð fyrir 2,5-2,75% en nú er spáð 1,8-2,5%. Eftir að þetta var tilkynnt lækkuðu markaðir stórlega næsta 30 mínúturnar. Um svipað leyti kom í ljós að tunnan af olíu var komin í 98,03 bandaríkjadali. Það voru því stórar fréttir á borð við þessar sem keyrðu lækkun vísitalna niður eftir hádegi.

Það voru hins vegar mikil viðskipti á mörkuðum sem hækkuðu vísitölur síðustu klukkustundina. Fjármálafyrirtæki hækkuðu í dag um 1,3% eftir að hafa lækkað um allt að 3,6%.