Meirihluti Bandaríkjamanna eru á móti björgun bílarisanna þriggja, GM, Ford og Chrysler samkvæmt nýrri könnun Washington Post og ABC News.

Samkvæmt könnuninni er það álit meirihluta landsmanna að bílaframleiðendurnir geta sjálfum sér um kennt um stöðuna en að eigin sögn standa öll félögin mjög illa um þessar mundir.

Miklar umræður hafa verið um mögulega björgun félaganna í Bandaríkjunum undanfarna daga. Fulltrúardeild bandaríkjaþings samþykkti í síðustu viku 14 milljarða dala neyðarlán til handa bílarisunum þremur en Öldungadeild þingsins hafnaði aftur á móti frumvarpi um að veita lánið.

Þingið er hins vegar komið í jólafrí þannig að eina von bílarisanna um fjármagn fyrir áramót er ef George W. Bush, bandaríkjaforseti ákveður að nota fjármagn úr 700 milljarða dala björgunarpakkanum - sem þingið var þegar búið að samþykkja til að bjarga banka- og fjármálakerfi landsins - til að veita bílarisunum neyðarlán.

Samkvæmt fyrrnefndri könnun eru 55% landsmanna á móti því að bjarga bílarisunum en 42% landsmanna eru hlynntir því.