Hlutabréf í Bandaríkjunum hafa ekki lækkað jafn mikið á einni viku frá árinu 2002. Minni smávörusala og þá sérstaklega á byggingavörum hefur aukið áhyggjur manna á yfirvofandi kreppu að mati Bloomberg fréttaveitunnar.

Eins og greint var frá í vikunni leiddi Intel lækkun tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækja en fyrirtækið gaf út afkomuviðvörun fyrir fyrsta ársfjórðung og sagði að sala fyrirtækisins yrði að öllum líkindum um milljarði bandaríkjadala undir áætlun. Í kjölfarið lækkaði Intel um 14% – og hefur ekki verið lægri síðan í mars síðastliðinn.

Sá hluti sem snýr að tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækjum í S&P 500 vísitölunni lækkaði um 3,1% í vikunni og hefur lækkað um 12% frá áramótum.

Citigroup lækkaði um 14% í vikunni

Á fjármálamörkuðum lækkaði Citigroup um 14% eftir að hafa tilkynnt um stærsta tap sitt í 196 ára sögu bankans. Bankinn hefur einnig ekki lækkað jafn hratt á einni viku síðan í júlí árið 2002.

Citigroup afskrifaði um 18 milljarða bandaríkjadala og lækkaði arðgreiðslu sína um 41%. Einnig tilkynnti bankinn að til standi að selja hlutabréf fyirr um 14,5 milljarð dala til að efla eigið fé bankans. Í kjölfarið getur þó orðið töluverð breyting á eignarhlutfalli og  stjórn bankans en ríkisstjórn Singapúr hefur þegar keypt stóran hlut í fyrirtækinu svo dæmi sé tekið. Þá tilkynnti bankinn einnig að til standi að segja upp 4.200 manns.

Merrill Lynch lækkaði um 5,2% í vikunni eftir að hafa tilkynnt um 16,7 milljarða dala afskriftir vegna vandræða á undirlánamarkaði.

Fjármálageirinn í S&P 500 vísitöluni lækkaði um 7,8% í vikunni og hefur ekki verið lægri frá árinu 2003.

Bush lofar 150 milljörðum dala

Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna greindi frá því í vikunni að byggingariðnaður, t.d. sala á byggingarvörum hafi  lækkað um 14% í desember auk þess sem verksmiðjuframleiðsla í Fíladelfíu fylki hefur ekki verið lægri í sex ár.

Viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar segir að nú þegar sé bandarískt efnahagskerfi í kreppu. „Það er ekkert sem segir að hið versta sé búið,” hefur Bloomberg eftir honum.

Einnig var greint frá því í gær að Bush bandaríkjaforseti tilkynnti að ríkisstjórnin ætli að efla bandarískt efnahagslíf með um 150 milljarða dala innspýtingu. Styrkur hins opinbera kemur meðal annars í formi skattaafslátta. Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke sagði að Seðlabankinn myndi að sama skapi leggja sitt af mörkum til að efla efnahagskerfið í landinu.

Það eru skiptar skoðanir á tillögum hins opinbera. Market Watch greinir frá því og hefur eftir viðmælenda sínum að vissulega sé það gott að öll svið hins opinbera, t.d. ríkisstjórnin og Seðlabankinn skuli gera sér grein fyrir þeim vanda sem nú steðjar að og séu tilbúin að bregðast við. Hins vegar kunni opinberir starfsmenn að tala efnahagslífið niður með neikvæðni og endalausum áhyggjum.

MBIA og Ambac Financial, tvö stærstu verðbréfafyrirtæki í Bandaríkjunum lækkuðu um 48% og 71% í vikunni. Bloomberg fréttaveitan segir 70% líkur vera á gjaldþroti fyrirtækjanna.

Um 230 fyrirtæki munu tilkynna um afkomu sína fyrir fjórða ársfjórðung í næstu viku. Þar á meðal eru Apple, IBM og Bank of America.

Kauphallir og hlutabréfamarkaðir verða lokaðir á mánudag vegna frídags helguðum Martin Luther King.