Bandaríska væntingavísitalan lækkaði í mars í 64,5 stig úr 76,4 stigum frá því í febrúar og hefur ekki verið jafn lág í fimm ár.

Húsnæðisverð lækkaði vestanhafs um 11,4% í janúar og hefur ekki lækkað jafn mikið í rúm 20 ár á einum mánuði.

Þá er talið að minni væntingar neytenda einkennist af slæmri stöðu á fjármálamörkuðum auk þess sem almenningur telur að samdráttur fari aukandi í bandarísku efnahagslífi.

Einkaneysla telur um 2/3 hluta af efnahagslífi Bandaríkjanna og fari svo að hún rýrni verulega kann það að hafa mikil áhrif á efnahagslíf landsins. Smásöluverslun minnkaði um 0,6% í febrúar samkvæmt tölum frá viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna.

Samkvæmt könnun Bloomberg fréttaveitunnar er talið að neysluvísitalan hækki um 0,5% á árinu sem er minnsta hækkun frá árinu 1991.

Væntingavísitalan mælir tiltrú og væntingar almennings til efnahagslífsins, atvinnuástandsins og heildartekna heimilisins. Ávallt er miðað við að vísitalan sé 100 stig, ef hún er minni en 100 stig eins og nú er gert ráð fyrir svartsýni en ef hún fer yfir 100 stig er talað um bjartsýni.