Verkbréfamarkaður í New York hökti í dag í kjölfar frétta af hruni á sölu á nýju íbúðarhúsnæði í maí. Þá féll salan um 32,7% og var sú minnsta sem skráð hefur verið að því er greint var frá á CNN Monney.com.

Dow Jones industrial (INDU) lækkaði að meðaltali um 35 punkta eða 0,3%. S&P 500 (SPX) lækkaði um 7 punkta eða 0,6% og Nasdaq (COMP) lækkaði um 14  punkta eða 0,6%.

Samkvæmt útlistun Census Bureau endurspeglar þessi afturkippur í sölu á nýju húsnæði þá erfiðleika sem enn er við að glíma í bandarísku hagkerfi. Nokkur ótti er einnig við það vestra að Bandaríkin kunni að vera að stefna inn í nýja efnahagskreppu. Hangir það saman við ótta við afleiðingar af áframhaldandi efnahagslægð í Evrópu og lækkandi gengi evrunnar.