Væntingar húsbyggjenda vestanhafs um framtíðarhorfur á markaðnum náðu metlægðum, að því er kom fram í nýrri könnun þar í landi í gær. CNN segir frá þessu.

Vísitalan sem mælir téðar væntingar féll niður í 9, en sérfræðingar höfðu búist við að hún héldist í sama gildi og í október, sem var 14. Sé vísitalan undir 50 stigum eru fleiri sem telja horfur slæmar en ekki.

Meðal þeirra 400 sem tóku þátt í könnunni voru 98% sem töldu að væntingar neytenda til markaðarins myndu ráða úrslitum, og á sama tíma niðurlögum margra fyrirtækja sem starfa á sviði húsbygginga. Einnig var nánast einhljóða samstaða um að lítill seljanleiki fasteigna magnaði hin neikvæðu áhrif upp enn frekar.