Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Xi Jinping, forseti Kína, hafa tilkynnt að þjóðirnar hafi gert með sér samkomulag um minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Samkomulagið felur í sér áætlun þjóðanna sem beinist gegn hnattrænni hlýnun á næstu áratugum.

Samkvæmt samkomulaginu munu Bandaríkin minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda um 26-28%, miðað við árið 2005, fyrir árið 2025. Bætist það við markmið Bandaríkjanna um að minnka útblásturinn um 17% fyrir árið 2020. Hins vegar hafa spurningar vaknað hvort Bandaríkin munu geta uppfyllt sinn hluta samningsins. Kolefnisútblástur landsins er nú um 10% minni en hann var árið 2005, en tölurnar hafa hins vegar farið hækkandi á ný.

Kína skuldbindur sig til þess að stöðva aukningu útblásturs koltvíoxíðs fyrir árið 2030. Einnig mun landið hafa það að markmiði að fá 20% af heildarorku frá annars konar orkugjöfum fyrir sama ár. Einhverjir hafa haldið því fram að þetta markmið sé óljóst og ekki nægilega metnaðarfullt, en Kína hefur hins vegar aldrei sett sér viðlíka markmið.

Samkomulagið felur einnig í sér að löndin munu halda áfram samstarfi sínu í rannsóknum og þróun á hreinni orkugjöfum.