Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum lækkuðu í dag í kjölfar þess að olíuverð hækkaði um 15%. Fjárfestar óttast jafnframt að risavaxnar björgunaraðgerðir ríkisins muni ekki ná að forða alþjóðahagkerfinu frá kreppuástandi. Bloomberg segir frá þessu.

S&P 500 lækkaði um 3,8%, Dow Jones lækkaði um 3,3% og Nasdaq um 4,2%. Fyrir hver sjö bréf sem lækkuðu, hækkaði eitt.

Fjármálafyrirtækjavísitala S&P hefur aldrei lækkað jafnmikið á einum degi. Washington Mutual, Sovereign Bancorp og Ilsley Corp lækkuðu öll um meira en fimmtung. Áhyggjur þess efnis að kaup hins opinbera á eitruðum undirmálslánum myndu minnka verðmæti allra húsnæðislána eru taldar helstu ástæður þessa.

Apple og Cisco leiddu lækkanir tækniframleiðanda, en væntingar um minni hagvöxt eru taldar hafa áhrif til sölusamdráttar hjá þeim fyrirtækjum.