Hlutabréf í Oracle, þriðja stærsta hugbúnaðarfyrirtæki heims hafa lækkað töluvert í dag eftir að fyrirtækið birti uppgjör fyrsta ársfjórðungs.

Sala á vörum fyrirtækisins hefur aukist síðustu þrjá mánuði um 16% sem er töluvert undir væntingum greiningadeilda en búist var  við 22-23% söluaukningu að því er Bloomberg fréttaveitan greinir frá. Tekjuafgangur félagsins var 1,3 milljarðar Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi.

Hlutabréf í félaginu hafa lækkað um 8% á mörkuðum í New York í dag.

Talsmaður félagsins segir í samtali við Bloomberg að áhyggjur af efnahagslífi í Bandaríkjunum geri það að verkum að færri kaupa sér tölvuhugbúnað um þessar mundir.

Á fréttvef BBC kemur fram að fjárfesta hafi litið svo á að Oracle myndi „sleppa framhjá“ hjöðnun markaða í Bandaríkjunum en nú virðast þær vonir úti.