Fjármálamarkaðir eru enn þjakaðir af streitu og bandaríski seðlabankinn er reiðubúinn að ganga enn lengra í aðgerðum sínum til þess að veita fjármálastofnunum aðgengi að lausafé.

Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði í ræðu fyrr í dag að þrátt fyrir að ástandið á fjármálamörkuðum hefði skánað að undanförnu væri það „fjarri því að geta talist eðlilegt.”

Ræðan var haldin á ársfundi seðlabankans í Atlanta í Georgíu.

Hann boðaði jafnframt að aukinn kraftur yrði settur í útlán Seðlabankans til fjármálastofnanna gegn veðum í verðbréfum ef aðstæður kalla á slíkar aðgerðir. Seðlabankinn hefur brugðist við lánsfjárkreppunni með mikilli framsækni í slíkum útlánum.

Hefur sumum þótt nóg um og gagnrýnt aðgerðirnar á þeirri forsendu að þær verðlaunuðu fjármálafyrirtæki sem hefðu stýrst af glæfralegri áhættusækni með því að veita þeim aðgengi að skattfé.

Þrátt fyrir að telja ástandið á fjármálamörkuðum óeðlilegt kom fram í máli Bernanke að aðgerðir bankans – fjölgun lánalína til fjármálastofnanna og stýrivaxtalækkanir - hefðu skilað árangri. Hins vegar sagði hann að á endanum þyrftu fjármálafyrirtækin sjálf að takast á við rót vandans á fjármálamörkuðum með því að draga úr skuldsetningu sinni, styrkja eiginfjárstöðu sína og auka gæði áhættustýringar. Bankamenn þurfi að gera ráð fyrir því að í framtíðinni kunni undir ákveðnum kringumstæðum virði hás hlutfalls eignasafns þeirra rýrna upp og þar af leiðandi verða þeir að verja sig gegn þeim möguleika.

Athygli vekur að Bernanke vitnaði í ráð breska hagfræðingsins Walter Bagehot um mikilvægi ráðdeildar og fyrirhyggju en bók hans Lombard Street, sem fyrst kom út 1873, gæti talist einhverskonar biblía hins íhaldssama bankamanns.

Bernanke sagði að fyrirhyggja gæti orðið til þess að aðgerðir sem eiga að stemma stigu við fjármálakreppum leiði ekki til þess að væntingar skapist um að stjórnvöld skeri ávallt þá sem sýna of mikla áhættusækni á endanum úr snörunni.

Hann sagði ennfremur að besta leiðin til þess að koma í veg fyrir að slíkar væntingar skapist sé með skilvirku eftirliti sem tryggir að fjármálafyrirtæki tryggi aðgengi sitt að lausafé áður en að fjármálakreppa skellur á.

_____________________________________

Nánar er fjallað um ræðu Bernanke og horfur í bandarísku efnahagslífi í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins á morgun. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .