Pantanir á varanlegum neysluvörum í Bandaríkjunum, að frátöldum bifreiðum og flugvélum, jukust óvænt í aprílmánuði. Mánaðaraukningin er sú mesta í níu mánuði.

Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Pantanir jukust um 2,5% í stað þess að dragast saman um 0,5% eins og meðalspá greinenda fyrir  Bloomberg fréttaveituna hljóðaði upp á. Bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir innan við eitt prósent aukningu og þær svartsýnustu samdrátt upp á 1,5%.

Mikil eftirspurn frá Kína og Brasilíu eftir vélum og raftækjum virðist hjálpa við að halda færiböndum gangandi í bandarískum verksmiðjum þessa dagana.

Þessi aukna eftirspurn eftir raftækjum, vélum og málmi, vóg hvað mest en pantanir á raftækjum jukust um 28% sem er mesta aukning pantana á raftækjum milli mánaða sem mælst hefur.

Bloomberg hefur eftir einum af hagfræðingum JPMorgan að veiking dollars sé að skila sér af mun meiri krafti inn í hagkerfið en búist hafi verið við.