Pöntunum á varanlegum neysluvörum fækkaði óvænt að sögn Bloomberg fréttaveitunnar um 1,7% í febrúar. Í janúar fækkaði pöntunum um 4,7% en vonast hafði verið til að þeim myndi fjölga aftur.

Samkvæmt könnun Bloomberg var vonast til 0,7% aukningar á pöntunum en í sambærilegri könnun Reuters fréttastofunnar var gert ráð fyrir 0,8% aukningu.

Það sem kemur í veg fyrir frekari fækkun pantana er að pöntunum á farþegaflugvélum frá Bandaríkjunum fjölgaði um 5,4% í febrúar.

Þetta þykir vísbending um frekari hjöðnun bandaríska hagkerfisins að sögn Bloomberg og telja fjárfestar að lækka þurfi stýrivexti enn frekar vestanhafs til að hreyfa við mörkuðum á ný.