Markaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag í kjölfar vaxandi tiltrúar á lækkandi lánakostnað auk jákvæðra frétta af stuðningi við verðbréfafyrirtæki.

Nasdaq hækkaði um 1,05%, Dow Jones hækkaði mest eða um 2,50% og S&P 500 hækkaði um 2,14%.

Í byrjun dags lækkuðu vísitölur nokkuð og sýndu rauðar tölur. Það var síðan undir lok dags, eða eftir kl. 15 að staðartíma í New York sem markaðir hækkuðu á ný og enduðu í plús.

Dow Jones vísitalan fór á flug undir lok dags og hækkaði um 600 stig á einum klukkutíma. Það varð til þess að vísitalan hafði hækkað um 298 stig í lok dags og stendur nú í 12.270,17 stigum.

Verðbréfafyrirtækin Ambac Financial og MBIA hafa fundað með bæði einkafjármálafyrirtækjum ásamt hinu opinbera í þeirri von að auka eigið fé fyrirtækjanna. Fitch Rating lækkaði lánshæfismat sitt á Ambac í byrjun ársins. Bæði verðbréfafyrirtækin hækkuðu mikið í dag, Ambac um 63% og MBIA um 27%.

Neikvæð byrjun dags

Flestir stóru bankanna hækkuðu í dag, það voru bankar á borð við J.P. Morgan, Bank of America og Citigroup. Bear Stearns hvatti fjárfesta til að kaupa í stóru bönkunum þrátt fyrir að margir þeirra hafi lækkað töluvert á síðustu misserum. Greiningadeild bankans sagði að bankar og fjármálafyrirtæki færu á flug á ný eftir að hafa aukið hlutafé sitt.

Viðmælandi Wall Street Journal sagði að fjármálamarkaðir væru nú að bregðast við ,,því sem gerðist í gær (stýrivaxtalækkun) og bjartsýni á næstu vikur” eins og hann komst að orði.

WSJ segir að nokkur vonbrigði hafi verið með yfirlýsingar evrópska Seðlabankans um vaxandi áhyggjur af verðbólgu. Blaðið hefur eftir viðmælanda sínum að í upphafi dags hafi nokkur svartsýni einkenni markaði í ljósi yfirlýsinga seðlabankamanna í Evrópu auk þess sem Apple tölvurisinn tilkynnti um slaka sölu.

Tæknifyrirtæki í erfiðleikum

Hlutabréf í Apple lækkuðu töluvert í dag eða um 11% og hefur ekki lækkað jafn mikið á einum degi frá því í maí 2002. Fyrirtækið tilkynnti að salan á fyrsta og öðrum ársfjórðungi yrði undir áætlunum.

Þá lækkaði Motorola um 19%  í dag en hagnaður farsímaframleiðandans lækkaði um 84% eftir að sala fyrirtækisins hafði lækkað um 18%. Nettó inkoma Motorola lækkaði um 100 milljarða bandaríkjadala á síðasta ársfjórðungi.

Olíuverð lækkaði í dag og í lok dagsins kostaði tunnan 86,65 bandaríkjadali.