Bandaríkjaþing hefur samþykkt tveggja milljarða dollara viðbótarframlag til úreldingarstyrkja vegna bílkaupa almennings eftir að eins milljarðs dollara framlag varð uppurið á tíu dögum.

Eigendum gamalla bíla stendur til boða 4.500 dollara styrkur (jafnvirði 570 þús. íslenskra króna) ef þeir skipta bílum sínum út fyrir nýsmíðaða bíla

Obama bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir að þessar aðgerðir hafi þegar reynst árangursríkar. Yfirlýstur tilgangur aðgerðanna er bæði sá að blása lífi í bílaiðnaðinn og eins að stuðla að minni umferðarmengun og draga úr eldsneytiseyðslu með því að fækka mestu bensínhákunum og  eiturspúurunum.

Í frétt BBC segir að aðgerðunum hafi víða verið fagnað en efasemdarmenn hafa haldið því fram að þetta séu aðeins tímabundin töfrabrögð og breyti litlu um efnahagsbatann þegar til lengi tíma sé litið.