Bandaríski seðlabankinn hefur slakað á reglum sínum um starfssemi fjárfestingabanka en vonast er til þess að það muni hleypa nýju lífi í fjárfestingar bæði áhuga- og fagfjárfesta.

Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

Þannig fela hinar breyttu reglur það í sér að fjárfestingabankar geta nú tekið 33% stöðu í félögum án þess að leita eftir sérstöku samþykki yfirvalda en takmarkið var áður 25%.

Þá hefur einnig verið rýmkað til um atkvæðisrétt fjárfesta þannig að þeir geti nú haldið atkvæðisrétti hlutafjár upp að 15% í stað 9,9% áður.

Samkvæmt frétt Reuters er breyttum reglum sem fyrr segir ætlað að glæða lífi í fjárfestingar vestanhafs og segir viðmælandi Reuters að þetta geti orðið til þess að minni fjárfestingafyrirtæki láti meira á sér bera, til dæmis með því að taka stöðu í stærri fjármálafyrirtækjum.

Hingað til hafa ákveðnir hópar fjárfesta, þá helst minni fjárfestingafyrirtæki (e. private equity firms), forðast það að fjárfesta meira í fyrirtækjum en sem nemur ákveðinni upphæð til að forðast regluverk bandaríska Seðlabankans.