Sala á fasteignum jókst í Bandaríkjunum í nóvember þrátt fyrir að allt bendi til þess að fasteignamarkaður vestanhafs sé í niðursveiflu.

Meðalverð fasteigna féll um 3,3% á 12 mánaða tímabili en fjárfestingar í fasteignum jukust um 0,4% í nóvember. Þrátt fyrir þessa söluaukningu telja sérfræðingar vestanhafs að vænta megi niðursveiflu á fasteignamarkaði og kennar þar helst um vandamálum á lánamörkuðum og eins strangari reglum varðandi lánaviðskipti. Þetta kemur fram bæði á WSJ og Bloomberg fréttaveitunni.

Viðmælendur Bloomberg telja að hagvöxtur verði innan við 2% á fyrsta ársfjórðungi næsta árs og vonast til þess að stýrivextir verði lækkaðir enn frekar til að hleypa lífi í efnahagskerfið.

Sá hluti sem snýr að byggingariðnaði Standard & Poor's vísitölunnar lækkaði um 0,9% í morgun þegar þessar niðurstöður voru kynntar.

Meðalverð lækka

Meðalverð fasteigna lækkaði í 210.200 bandaríkjadali en var 217.400 í nóvember 2006. Sala á fasteignum hefur lækkað um 31% frá því í júlí 2005 þegar fasteignaviðskipta voru sem mest.

í lok nóvember voru 4,27 milljón heimili til sölu í Bandaríkjunu og er það lækkun upp á 3,6%. Eins og sakir standa spannar það sölutímabil upp á 10,3 mánuði.

Eins og áður hefur komið fram féll sala á nýjum heimilum, sem eru um 15% þeirra fasteigna á markaði, um 9% í nóvember og hefur ekki verið lægri í 12 ár.