Bandaríkin munu hugsanlega þurfa að taka einhliða ákvörðun um innrás í Sýrland. Breska þingið felldi í gær tillögu Davids Cameron, forsætisráðherra landsins, um hernaðarlega íhlutun.

Á vef CNN er haft eftir Chuck Hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að bandarísk stjórnvöld virði ákvörðun Breta. „Á hverju ríki hvílir sú skylda að taka sínar eigin ákvarðanir og við virðum ákvörðun hverrar þjóðar,“ sagði Hagel þar sem hann var staddur í Manilla, höfuðborg Filippseyja.

Hann sagði jafnvel að þrátt fyrir ákvörðun Bretanna væri það markmið Bandaríkjamanna að ef ráðist yrði á sýrlensk stjórnvöld, þá yrði það gert í samstarfi vestrænna þjóða.