Einkaneysla jókst um 0,8% í Bandaríkjunum í síðasta mánuði. Skattaendurgreiðslupakki stjórnvalda upp á 145 milljarða dollara er stærsti áhrifavaldur þessarar aukningar, en hún var 0,1% umfram meðalspár sérfræðinga. Aukningin er sú mesta síðan í nóvember. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna.

Skattaendurgreiðslum stjórnvalda var ætlað að örva efnahagslífið svo bandaríska hagkerfinu verði bjargað frá kreppu. Sérfræðingar hafa þó varað við því að þessar aðgerðir muni reynast skammgóður vermir.

Ráðstöfunartekjur jukust jafnframt um 5,7% í síðasta mánuði. Viðskiptaráðuneytið sagði þó að neytendur væru nú að spara í auknum mæli.

Þrátt fyrir aðgerðir bandarískra stjórnvalda eru væntingar neytenda hinar lægstu síðan í febrúar 1992.