Smásala í Bandaríkjunum lækkaði nú annan mánuðinn í röð samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna og er hækkandi verðlagi helst kennt um að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þannig minnkaði smásala milli mánaða um 0,3% í ágúst en hafði í júlí dregist saman um 0,5% milli mánaða.

Reuters segir tölurnar vera nánast í takt við væntingar greiningaraðila sem höfðu spáð um 0,2% samdrætti í smásölu í ágúst.

Í frétt Reuters kemur þó fram að sala á bifreiðahjólum jókst þó um 1,9% í ágúst en það er í fyrsta skipti á þessu ári sem sala á bifreiðahjólum eykst á milli mánaða. Sala á bifreiðahjólum hafði dregist saman um 4,3% í júlí og hefur nú, þrátt fyrir aukninguna í ágúst, dregist saman um 13,5% milli ára.

Sé salan á bifreiðahjólum aðskilin smásöluvísitölunni kemur í ljós að samdrátturinn var 0,7% milli mánaða í ágúst.

Smásala á bensíni lækkaði um 2,5% milli mánaða og er það mesti samdráttur á bensíni í rúmt ár að sögn Reuters.

Þá minnkaði sala á byggingarefni, fatnaði og rafmagnstækjum í ágúst.