Smásala í Bandaríkjunum í maí jókst umfram það sem búist var við og segir Bloomberg fréttaveitan að bandarískir neytendur séu að nota nýlega skattafslætti til að kaupa sér raftæki, húsgögn og fleira í þeim dúr.

Smásalan jókst um 1% sem er mesta aukning milli mánaða frá því í nóvember á síðasta ári samkvæmt upplýsingum frá viðskiptamálaráðuneyti Bandaríkjanna. Ef eldsneyti er aðskilið jókst smásala um 0,8%.

Bloomberg segir þessa tölur sýna að mótvægisaðgerðir stjórnvalda séu að hafa jákvæð áhrif á neysluhegðun og hagvöxt í Bandaríkjunum.

Þegar höfðu greiningaraðilar á vegum Bloomberg gert ráð fyrir að smásala myndi ýmist dragast saman um 0,3% eða aukast um 0,6%.

Sala á raftækjum jókst um 0,7% en sala á húsgögnum og heimilisvörum jókst um 1,2% sem er mesta aukning milli mánaða frá því í mars í fyrra. Þá jókst sala á byggingavörum um 2,4% en settur er sá fyrirvari á að sala á byggingarvörum eykst iðulega á vormánuðum þar sem fólk nýtir þann tíma „til að taka til hendinni“ eins og Reuters fréttastofan greinir frá.

Þá jókst sala á bifreiðum um 0,3% í maí eftir að hafa dregist saman um 2,1% í apríl.

Talsmaður Wal-Mart segir í samtalið við Bloomberg að salan hjá stórmarkaðskeðjunni hafi aukist um 3,9% milli mánaða.