Smásöluverslun í Bandaríkjunum dróst saman um 0,2% milli mánaða í apríl sem er í takt við það sem gert hafði verið ráð fyrir.

Í mars síðastliðnum jókst smásöluverslun hins vegar um 0,2% sem kom nokkuð á óvart að sögn Bloomberg fréttaveitunnar. Þá er greint frá því að hækkandi eldsneytisverð og óvissa á atvinnumarkaði hafi dregið úr einkaneyslu almennings.

Ef frá er skilin verslun á bílum jókst smásöluverslun um 0,5% milli mánaða.

Að sögn viðmælenda Bloomberg þykja þessar tölur gefa til kynna að ekki sé jafn mikil hætta á frekari samdrætti eins og gjarnan er óttast.

Á síðastliðnum mánuðum hefur Seðlabanki Bandaríkjanna lækkað stýrivexti sína auk þess sem almenningur hefur fengið vænar endurgreiðslur frá skattinum vestanhafs til að mæta þeim vandamálum sem steðjað hafa að bandarískum heimilum í kjölfar undirmálslánakrísunnar síðustu mánuði.

Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði nýjustu tölur um smásöluverslun vera merki um að markaðir séu að jafna sig. „En það er langt frá því að vera eðlilegt ástand,“ bætti Bernanke við.