Þrátt fyrir að samdráttarskeið sé tæknilega ekki hafið í Bandaríkjunum – tveir ársfjórðungar í röð þar sem hagvöxtur mælist neikvæður – bendir margt til þess að aðeins sé tímaspursmál hvenær því verði formlega lýst yfir. Og þótt ekki muni koma til þess þá er á hinn bóginn ekki víst að slíkt formsatriði verði mikil hughreysting fyrir þá fjölmörgu Bandaríkjamenn sem munu verða – og hafa orðið – illa fyrir barðinu á hækkandi orkuverði, lækkandi húsnæðisverði, auknu atvinnuleysi og hækkandi fjármagnskostnaði.

Hagtölur sem birtust fyrir helgi sýndu að bandaríska hagkerfið hefði vaxið um 1,9% á ársgrundvelli á öðrum ársfjórðungi. Enda þótt slíkur vöxtur verði að teljast ásættanlegur – ekki síst í ljósi erfiðra aðstæðna í efnahagslífinu – var hann engu að síður undir væntingum sérfræðinga á Wall Street, sem höfðu reiknað með að skattaendurgreiðslur ríkisins upp á 86 milljarða dala, sem byrjuðu að berast almenningi í lok apríl, myndu hafa meiri áhrif en raun bar vitni.

Ríkið og útflutningur hélt hagkerfinu á floti

Endurskoðaðar hagtölur fyrir fjórða ársfjórðung á síðasta ári leiddu einnig í ljós að hagkerfið hefði dregist saman á tímabilinu – hagvöxtur á ársgrundvelli mældist neikvæður um 0,2%, en ekki jákvæður um 0,6% eins og fyrri tölur höfðu gefið til kynna. Hins vegar tók vöxtur aftur lítillega við sér á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, þar sem hann mældist 0,9%. Bandaríkjunum virðist því enn hafa naumlega tekist að sneiða hjá tæknilegu samdráttarskeiði – að minnsta kosti í bili.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .