Bandaríkin eru stærsti kaupandi að íslenskum vöru- og þjónustuútflutningi, segir í Hagsjá Landsbankans . Þar er bent á að nokkur óvissa ríki vegna niðurstöðu forsetakjörsins í Bandaríkjunum, þar sem að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna. Á síðasta ári var útflutningur til Bandaríkjanna 161 milljarðar.

„Í kosningabaráttunni kom Donald Trump fram með fremur neikvæðar yfirlýsingar í garð alþjóðaviðskipta og -samvinnu. Þannig hefur hann talað fyrir því að rifta fríverslunarsamningum Bandaríkjamanna við t.d. Mexíkó og Kanada. Trump hefur einnig rætt um að draga Bandaríkin út úr Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og rifta Parísarsamkomulaginu um loftlagsmál sem var undirritað af 195 löndum í desember síðastliðnum,“ segir í greiningu Landsbankans.

Greiningardeild bankans tekur einnig fram að það sé þó ómögulegt að segja til um hvaða áhrif ákvarðanir Trump hafa á kjörtímabilinu og hvernig þær koma til með að snerta íslenska hagkerfið beint og óbeint.

Þó ber að taka fram að: „Sé horft til þess hvar útflutningurinn hefur fyrst viðkomu eru Bandaríkin reyndar í öðru sæti og Holland í fyrsta sæti. Þetta helgast af því að rúmur helmingur álútflutnings frá Íslandi fer fyrst til Hollands þar sem honum er skipað upp og fluttur áfram til annarra landa. Horft framhjá öllum álútflutningi Íslands til Hollands fer vöruútflutningur þangað úr 163 ma. kr. niður í 14,8 ma. kr,“ eins og segir í Hagjá Landsbankans.