Stjórnvöld í Bandaríkjunum og helstu fjármálastofnanir nálgast nú samkomulag um að taka höndum saman um lausn undirmálslánakrísunnar, að því er fram kemur í frétt WSJ. Gert er ráð fyrir að frysta vexti ákveðinna undirmálsveðlána. Í fréttinni segir að slíkt samkomulag kynni að endurvekja traust hjá fjárfestum og íbúðareigendum í erfiðleikum, en báðir hópar hafi áhyggjur af að vextir á meira en tveimur milljónum breytilegra veðlána muni hækka mikið á næstu tveimur árum. Búist er við að einstök atriði samkomulagsins verði ef til vill kynnt í næstu viku.

Aðgerðin er einnig talin til þess fallin að hjálpa ríkisstjórn Bush forseta, sem hafi sætt ámæli fyrir aðgerðarleysi vegna óróans á húsnæðismarkaði. Meðal fjármálafyrirtækjanna sem stjórnvöld ræða við eru Citigroup, Wells Fargo, Washington Mutual og Countrywide Financial Corp. WSJ hefur eftir heimildarmönnum sínum að einstakir aðilar viðræðnanna hafi þegar samþykkt að fara eftir því samkomulagi sem hópurinn í heild nær saman um, en hann er nefndur Hope Now Alliance.