Merrill Lynch og Bank of America ræða nú samruna sín á milli. Umræðurnar hófust eftir að upp úr slitnaði úr viðræðum um yfirtöku annað hvort Bank of America eða Barclays á Lehman Brothers.

Rætt er um að Bank of America muni greiða 29 dollara fyrir hvern hlut í Merrill, sem er 70% hærra en lokunarverð á bréfum bankans í viðskiptum föstudagsins. Miðað við það verð er Merrill um 40 milljarða dollara virði.

Merrill Lynch hefur á sínum snærum stærsta verðbréfunarmiðlunarteymi allra fjárfestingabanka í Bandaríkjunum, að því er kemur fram hjá Bloomberg.

Sérfræðingar telja samrunann afbragðshugmynd. Merrill Lynch hefur þurft að afskrifa mikið af fjármálagjörningum tengdum slæmum fasteignalánum. Talið er að Merrill muni tapa tæplega 6,9 milljörðum dollara á þriðja fjórðungi ársins, og látið hefur verið í veðri vaka að Merrill færi næst á hausinn á eftir Lehman ef ekkert yrði gert fljótlega.