Störfum fækkaði í mars í Bandaríkjunum þriðja mánuðinn í röð og hlutfall atvinnulausra hefur ekki mælst hærra frá því í september árið 2005. Hagfræðingar segja að þetta nánast staðfesti að samdráttarskeið sé nú þegar hafið í bandaríska hagkerfinu.

Samkvæmt hagtölum sem Vinnumálastofnun Bandaríkjanna birti í dag þá fækkaði störfum í marsmánuði um 80 þúsund, sem er talsvert meira heldur en gert hafði verið ráð fyrir; meðalspá greinenda á Wall Street hljóðaði upp á 50 þúsund. Hlutfall atvinnulausra hækkaði um 0,3 prósentustig á milli mánaða – úr 4,8% í 5,1%. Störfum í opinbera geiranum fjölgaði hins vegar um 18 þúsund í mánuðinum, á meðan störfum í einkageiranum fækkaði um 98 þúsund.

Endurskoðaðar atvinnuleysistölur fyrir febrúar sýndu jafnframt að störfum hefði fækkað meira í febrúar en fyrstu áætlanir höfðu sagt til um; samtals fækkaði störfum um 76 þúsund í mánuðinum en ekki 63 þúsund.

Hagfræðingar segja að aukið atvinnuleysi hafi orðið til þess að draga verulega úr bjartsýni neytenda, sem aftur hafi orðið til þess að draga úr einkaneyslu og hagvexti. Bandaríska hagkerfið er að stærstum hluta drifið áfram af einkaneyslu almennings og nemur hlutfallið tæplega 70% af vergri landsframleiðslu, sem er það hæsta sem þekkist í hinum þróaðri hagkerfum.

Ljóst þykir að þrengingar á bandarískum vinnumarkaði muni renna stoðum undir þær spár fjárfesta og sérfræðinga að Seðlabanki Bandaríkjanna – sem viðurkenndi í fyrsta skipti í vikunni að möguleiki væri á samdrætti í hagkerfinu – þurfi að ráðast í frekari aðgerðir til þessa stemma stigu við djúpstæðum samdrætti.

Þrátt fyrir að forsvarsmenn seðlabankans hafi að undanförnu gefið til kynna að ekki sé mikið meira rými fyrir frekari stýrivaxtalækkunum – stýrivextir hafa lækkað um 300 punkta frá því í september – þá sýna framvirkir samningar að fjárfestar veðja á að stýrivextir verði komnir í 1,5% næstkomandi júní.