Seðlabanki Bandaríkjanna hefur ákveðið að halda stýrivöxtum sínum áfram við núllið og gerir jafnframt ráð fyrir að svo verði um einhvern tíma.

Stýrivextir í Bandaríkjunum eru nú á bilinu 0% - 0,25%. Að sögn Seðlabankans má gera ráð fyrir því að verðhjöðnun og lítil undirliggjandi verðbólga haldi vöxtunum lágum um hríð. Vextir hafa verið óbreyttir frá því í desember 2008.

Einkaneysla í Bandaríkjunum jókst á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Það gefur von um betri tíma þar sem einkaneysla vegur um 2/3 af bandarísku hagkerfi. Þá hefur sala á nýjum íbúðum jafnframt aukist umfram væntingar greiningaraðila.

Þrátt fyrir þessu jákvæðu teikn á lofti telur bandaríski seðlabankinn að mikið atvinnuleysi og hjöðnun á útlánum banka vestanhafs muni hægja á hagvexti.