Dótturfyrirtæki deCode, Íslensk erfðagreining, hefur fengið styrk frá Bandarísku heilbrigðisstofnuninni (National Institute of Health, eða NIH) vegna erfðagreiningar á nikótínfíkn, segir í tilkynningu frá félaginu.

Félagið hefur hlotið styrk ?til að leita breytileika í erfðamengi mannsins sem veldur því að ákveðnum einstaklingum er hættara við að verða háðir nikótíni," segir í tilkynningunni. Upphæð styrksins hefur ekki verið gefin upp.

Samningurinn er til fjögurra ára og mun Íslensk erfðagreining ?standa fyrir umfangsmiklum erfðarannsóknum á nikótínfíkn á Íslandi, auk samanburðarrannsókna í öðrum löndum Evrópu og í Bandaríkjunum. Markmið rannsóknarinnar er að einangra erfðavísa sem tengjast líffræðilegum orsökum nikótínfíknar."

?Við vitum að reykingar eru helsti áhættuþáttur fjölda alvarlegra sjúkdóma. Við vitum líka að fíkn í tóbak er mjög sterk og helsta ástæðan fyrir því hversu flestum reykingamönnum gengur illa að hætta þessari heilsuspillandi iðju. Nikótínfíkn er auðvitað flókið fyrirbæri með margar orsakir, bæði líffræðilegar og samfélagslegar, en ég hef fulla trú á því að með því að nota þær aðferðir sem við höfum þróað til erfðarannsókna og það mikla magn upplýsinga sem við höfum safnað, takist okkur að að finna erfðabreytileika sem veldur því að sumir virðast frekar verða háðir tóbaki en aðrir. Einangrun erfðavísa sem tengjast líffræðilegum orsökum nikótínfíknar getur svo opnað nýjar leiðir til að þróa betri og árangursríkari aðferðir til að hjálpa fólki að hætta að reykja," sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.