Enn aukast illdeilur í kring um Doha-viðræðurnar, en fulltrúi Bandaríkjanna í viðræðunum, Susan Schwab, hefur nú svarað fyrir þá miklu gagnrýni sem Bandaríkin hafa hlotið í kjölfar þess að slitnaði upp úr viðræðunum á mánudag og sakar hún meðal annars fulltrúa Evrópuþjóða í umræðunum um að breiða út lygar til að firra sig ábyrgð, segir í frétt Financial Times.

Schwab segir að Bandaríkin fram að þessu reynt að forðast illdeilur, með þá von um að hægt væri að taka upp viðræðurnar aftur. Schwab segir ennfremur að fullyrðingar aðildarríkja í viðræðunum um að þvermóðska og ósanngirni Bandaríkjanna hefðu valdið því að slitnaði upp úr viðræðunum séu rangar og villandi, segir í fréttinni.

Viðræðurnar snérust um niðfellingu tolla á landbúnaðarvörum á milli markaðssvæða, en Bandaríkin fóru fram á meiri niðurfellingu en Evrópusambandið, Indland og Brasilía voru tilbúin að veita.