Bandarískir öldungadeildarþingmenn náðu í nótt saman um aðgerðir sem eiga að koma í veg fyrir að landið keyri fram af fjárlagaþverhnípinu svokallaða (e. fiscal cliff) í byrjun nýs árs. Áður höfðu þeir Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, og Mitch McConnell, oddviti Repúblikana í öldungadeildinni, handsalað samkomulagið.

Í samkomulaginu verða áhrif boðaðra skattahækkana ekki jafn víðtæk og áður var gert ráð fyrir og aðhaldsaðgerðum hins opinbera slegið á frest. Skattar á millistéttafjölskyldur hækka ekki. Öðru máli gegnir hins vegar um fólk í efri tekjuflokkum, sem mun greiða hærri skatta en áður. Mörkin miðast við einstaklinga með 400 þúsund dali í laun á ári, jafnvirði 50 milljóna króna. Þá mun hið opinbera fresta nokkrum sparnaðaraðgerðum um tvo mánuði og framlengja greiðslu atvinnuleysisbóta til þeirra sem lengst hafa verið án atvinnu og horfðu fram á að missa bætur sínar í byrjun ársins. Því til viðbótar mun s.s. verð á mjólkurvöru ekki hækka í bráð.

Samkvæmt umfjöllun bandarísku fréttastofunnar NBC af málinu eru skattahækkanirnar, sem felast öðru fremur í afnámi skattaafsláttar, einhverjar viðamestu breytingarnar sem gerðar hafi verið á skattkerfinu vestanhafs í 22 ár.

Varað hefur við áhrifunum af því sem kynni að gerast hefði ekkert samkomulag náðst, skuldir landsins hefðu rokið upp, landsframleiðsla dregist saman, atvinnuleysi aukist frekar og landið orðið kreppu að bráð.

Fréttastofan segir Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, hafa fagnað því að samkomulagið sé í höfn og hafði eftir honum áður en það fór til öldungadeildarinnar, að bæði Demókratar og Repúblikanar, hafi þurft að gefa eftir af kröfum sínum.