Tekjur á fjórða fjórðungi ársins hjá fyrirtækjum sem Standard & Poor’s 500 vísitalan samanstendur af gætu hafa lækkað að meðaltali um 11,9% ef árið á undan er lagt til grundvallar. Þetta kemur fram á vef Bloomberg.

Tekjur bandarískra fyrirtækja hafa þá lækkað sjötta fjórðunginn í röð, sem er lengsta tímabil þar sem tekjur lækka í 20 ár. Kemur þetta í kjölfar þess að eftirspurn eftir bílum, fasteignum og smærri neysluvörum hefur dregist saman.

Samkvæmt spá greiningaraðila verður tap General Motors 6,6 dollarar á hlut, en bandaríska ríkið hefur nú hlaupið undir bagga með félaginu, með 9,4 milljarða dollara fyrirgreiðslu.

Sérfræðingar vestra spá því að þetta ástand muni vara næstu tvo fjórðunga til viðbótar, en því er spáð að tekjur fyrirtækja dragist saman um rúm 10% fyrstu þrjá mánuði næsta árs, og um 5,8% á öðrum fjórðungi 2009. Þá spá sérfræðingar því að tekjur taki við sér og hækki um 12,6% á þriðja fjórðungi næsta árs.

S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 25% á fjórða ársfjórðungi, sem er mesta lækkun á einum fjórðungi síðan á þriðja fjórðungi árið 1947.