Toyota Moltor Corp. hefur samþykkt að greiða bandarískum yfirvöldum 16,375 milljónir dollara (rúma 2 milljarða króna) í sekt fyrir að innkalla ekki 2,3 milljónir bíla á síðustu fjórum mánuðum vegna galla. Er þetta mesta sekt sem nokkur bílaframleiðandi hefur þurft að greiða í sögunni að sögn The Detroit News. Er Toyota gert að millifæra þessa upphæð til ríkissjóðs Bandaríkjanna innan  30 daga.

Bandarísk yfirvöld segjast ætla að halda áfram rannsókn á Toyota og hvernig fyrirtækið hafi haldið á málum er varðar innkallanir á bílum.

„Með því að tilkynna ekki um þekkt öryggisvandamál eins og skylt er samkvæmt lögum, hefur Toyota sett neytendur í mikla hættu,” segir Ray LaHood ritari hjá National Highway Transportation Safety Administration. „Ég er ánægður með að Toyota hefur viðurkennt ábyrgð á að hafa brotið lögformlegar skyldur sínar um að tilkynna skilmerkilega um alla galla.”

„Við samþykktum þessa niðurstöðu til að koma í vega fyrir áframhaldandi deilur og möguleg málaferli,” segir talsmaður Toyota.