Vísitala neysluverðs jókst um 0,8% í Bandaríkjunum í júlí og mælist 12 mánaða verðbólga því 5,6%.

Helst er um að kenna hækkandi verðlagi á matvörum, eldsneyti og flugfargjöldum að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þá hefur verðbólga í Bandaríkjunum ekki verið hærri í 17 ár.

Hækkun vísitölu neysluverðs er hærri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir, en samkvæmt Wall Street Journal hafði þegar verið gert ráð fyrir 0,2% hækkun.

Þrátt fyrir þetta hefur Reuters eftir viðmælendum sínum að þessar tölur hræði ekki bandaríska Seðlabankann. Hækkun verðlags hefur hjaðnað í ágúst auk þess sem Bandaríkjadalur hefur styrkst það sem af er þessum mánuði.

Því er ólíklegt að bankinn hækki stýrivexti sína en að sama skapi er ólíklegt að stýrivextir lækki bráðlega.