Thomas Hoenig, yfirmaður seðlabankans í Kansas, segir að „alvarlegur“ verðbólguþrýstingur gæti knúið bandaríska seðlabankann til að hækka stýrivexti.

Hoenig segir rangt að halda því fram að aðeins sé um að ræða tímabundinn verðbólguþrýsting í hagkerfinu - ástandið sé alvarlegra en það.

Gengi Bandaríkjadals hækkaði í kjölfar ummæla hans gagnvart bæði evrunni og sterlingspundi. Í ræðu sem Hoenig flutti á efnahagsráðstefnu í Denver sagði hann að það væri „veruleg hætta á því að hærri verðbólga myndi festast í sessi í hagkerfinu sem myndi aftur krefjast aðhaldssamari peningastefnu af hálfu seðlabankans“.

Hoenig sagði að það sem væri hins vegar alvarlegast af öllu, væri andrúmsloftið í samfélaginu: „Það er orðið sambærilegt því á áttunda áratugnum þar sem neytendur gerðu sjálfkrafa ráð fyrir áframhaldandi verðhækkunum“.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .