Árið 2017 verða Bandaríkin orðin stærri olíuframleiðandi en Sádi Arabía og Rússland. Þessu spáir Alþjóðaorkumálastofnunin (International Energy Agency, IEA) í nýrri skýrslu og Financial Times fjallar um í dag.

Þetta er í fyrsta sinn sem IEA spáir því að Bandaríkin verði stærsti olíuframleiðandi heims. Stofnunin er virtasti orkumálagreinandi heims.

Aðrir greinendur benda þó á að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum sé enn á frumstigi. Því sé ekki öruggt að framleiðslan verði eins mikil og stofnunin spáir. Í dag framleiða Bandaríkin aðeins um 20% af þeirri orku sem landið þarf. Að mati Alþjóðaorkumálastofnunarinnar mun ríkið framleiða orku sem jafngildir um 100% af orkuþörf sinni árið 2030.