Þeir milljarðar Bandaríkjadala sem bandarísk stjórnvöld hafa undanfarnar vikur dælt í bankakerfið vestanhafs hafa jákvæð á áhrif á hagkerfið þó enn eigi eftir að koma í ljós hver langtímaárangurinn verður.

Þetta sagði Neel Kashkari, skrifstofustjóri hjá bandaríska fjármálaráðuneytinu i samtali við fjölmiðla í dag.

Hann sagði að innspýtingin hefði komið stöðugleika á bankakerfið sem var við þið að hrynja.

„Við komum í veg fyrir að fjármálakerfið hryndi,“ sagði Kashkari.

„Það er auðvitað áþreifanlegasti árangurinn í dag.“

Bandaríkjaþing hefur þegar heimilað ríkisstjórn Bandaríkjanna að setja allt að 700 milljarða dali inn í hagkerfið sem hluta af svokölluðum björgunaraðgerðum. Þar af mun fjármálaráðuneytið verma allt að 250 milljörðum dala til hlutabréfakaupa í þeim tilgangi að hjálpa bönkum og fjármálafyrirtækjum að auka eigið fé sitt.

Þá sagði Kashkari að í fjármálaráðuneytinu væri nú fundað daglega um aðgerðir til að bregðast við fjármálakrísunni.