Vísitala neysluverðs jókst um 0,2% í Bandaríkjunum í apríl sem er minna en gert hafði verið ráð fyrir að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Samkvæmt Bloomberg höfðu hátt í 80 hagfræðingar gert ráð fyrir hækkun neysluvísitölu upp á 0,3% í apríl. Matarverð hækkar um 0,9% milli mánaða sem er að sögn Bloomberg mesta hækkun í einum mánuði í átján ár.

Þrátt fyrir hækkandi matar- og eldsneytisverð hafa aðrar neysluvörur verið á miklum útsölum í Bandaríkjunum síðustu misseri, vörur á borð við húsgögn, rafmagnstæki og byggingarvörur sem koma í veg fyrir að matar- og eldsneytisverð keyri upp verðbólguna.

„Það lítur út fyrir að við séum að sjá framför á markaði,“ segir Michael Feroli, hagfræðingur hjá J.P. Morgan. „Þetta eru góðar fréttir fyrir Seðlabankann,“ segir Feroli og á þar við að þessar tölur haldi aftur af verðbólgunni.