Viðskiptahallinn í Bandaríkjunum minnkaði nokkuð í júní en lágt gengi Bandaríkjadals gerði það að verkum að útflutningur jókst meira en gert hafði verið ráð fyrir samkvæmt tölum frá viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna.

Viðskiptahallinn er engu að síður 56,8 milljarðar dala en var í maí 59,2 milljarðar dala. Greiningaraðilar á vegum Bloomberg höfðu þó gert ráð fyrir hærri viðskiptahalla, sumir allt að 61,5 milljörðum dala.

Bæði inn- og útflutningur jókst í júní og hafa ekki verið meiri í um fjögur ár að sögn Reuters fréttastofunnar. Þannig jókst útflutningur um 4% en innflutningur um 1,8%.

Viðmælandi Reuters fagnar því að viðskiptahallinn skuli minnka og segir það styrkja efnahag landsins í upphafi þriðja ársfjórðungs. Hann varar þó við því að menn fagni um of því vaxandi útflutningur gagnvart innflutningi bendir til þess að samdráttur sé að eiga sér stað þar sem neytendur virðist vera að kaupa sér minna.

Viðskiptahallinn nam rétt rúmlega 351 milljarði á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við rúmlega 358 milljörðum á sama tíma í fyrra.