Væntingavísitala Bandaríkjamann hækkar örlítið í byrjun ágúst og mælist nú 67,1 stig en var 61,2 stig í júli.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má rekja hækkunina til lækkandi eldsneytisverðs og þeirra skattaafslátta sem ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur boðað í kjölfar lausafjárkrísunnar þar í landi og greiðsluerfiðleika einstaklinga.

Viðmælendur Bloomberg eru jákvæðir á að væntingavísitalan fari hækkandi á næstu misserum þar sem ákveðin „ró virðist vera að koma á markaði,“ eins og einn þeirra kemst að orði.

Annar segir neytendur horfa á eldsneytisverð og matvælaverð auk þess að fylgjast með húsnæðislánum sínum. Þrátt fyrir að nauðungarsölum fari fjölgandi í Bandaríkjunum hefur hækkun á eldsneytis- og matvælaverði hjaðnað.