Vísitala Reuters-fréttaveitunnar fyrir væntingar bandarískra neytenda tók skarpa dýfu í apríl þegar hún mældist 63,5. Vísitalan var 69,5 stig í mars.

„Það sem vekur athygli manna er að vísitalan hefur ekki verið lægri í 26 ár. Svo virðist sem hinn bandaríski neytandi sé öllu svartsýnni en búist var við en væntingar voru til að gildi aprílmánaðar yrði í kringum 69 eða svo gott sem óbreytt frá fyrri mánuði,“ segir í hálffimm fréttum Kaupþings.

„Þegar allt kemur til alls er ekki að undra að neytendur séu með nokkra skeifu í munnvikunum. Bandríska hagkerfið hefur snúið harkalega við í kjölfar lækkandi húsnæðisverðs og undirmálslánakrísunnar sem síst hefur verið til þess fallið að gleðja hinn almenna neytenda en utanaðkomandi þættir koma einnig nærri. Matarverð hefur hækkað, eldsneytisverð einnig og nú, í kjölfar skorts á lánsfé og almennt minni umsvifa fyrirtækja, er atvinnuleysi í Bandaríkjunum á uppleið en það mældist 5,1% í mars,“ segir í hálffimm fréttum.

Þá segir að það sem helst gæti lyft brúnum neytenda er fyrirhuguð endurgreiðsla hluta af skattgreiðslum ársins 2007 en bandaríska ríkið hyggst endurgreiða allt að 152 milljarða dollara af skatttekjum þess í maí.

„Til langs tíma litið mun það þó vart hafa varanleg áhrif meðan húsnæðisverð lækkar og matvæla- og eldsneytisverð hækkar. Allt útlit er því fyrir nokkurn samdrátt í einkaneyslu vestanhafs,“ segir í hálffimm fréttum Kaupþings.