Nú eru 130 félög með heimild til að færa bókhald sitt í erlendum gjaldmiðli og hefur þeim fjölgað um 29 frá árinu 2004. 84 félög hafa valið bandaríkjadal, en hann er algengastur gjaldmiðla í alþjóðaviðskiptum. Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins.

31 félag notast við evrur og átta við ensk pund. 7 félög notast við aðra gjaldmiðla. Samkvæmt breytingu á lögum um ársreikninga á árinu 2002 geta félög sótt um það til ársreikningaskrár að þeim verði heimilað að færa bókkhald sitt og semja ársreikninga í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónnum ef þau telja hann starfrækslugjaldmiðil félagsins. Starfrækslu gjaldmiðillinn skal vera skráður hjá Seðlabanka Íslands eða viðskiptabanka félagsins hér á landi.

Í vefritinu er bent á að skilyrði þau sem félag verður að uppfylla til að fá heimildina er að það sé með meginstarfsemi sína erlendis eða sé hluti erlendrar samstæðu eða eigi erlent dótturfélag sem það hefur meginviðskipti við. Ef meginstarfsemin er hér á landi verður það að hafa verulegan hluta tekna sinna frá erlendum aðilum og er þá litið til viðskipta félagsins og tengsla þeirra viðskipta við erlent viðskiptaumhverfi. Þá geta félög sem fara fram úr tilgreindum stærðarmörkum laganna til að kallast stór félög fengið þessa heimild ef erlendar skuldir þeirra eru tengdar fjárrfestingu þeirra í erlendum fjárfestingarvörum. Af félögum með erlendan starfrækslugjaldmiðil eru 9 skráð í Kauphöll og skiptast starfrækslugjaldmiðlar þeirra þannig að fimm félög nota evru, tvö félög bandaríkjadal og tvö félög ensk pund.