Frá áramótum hefur Bandaríkjadalur styrkst nokkuð gagnvart evrunni. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Evra kostar nú um 1,14 bandaríkjadalií samanburði við 1,25 bandaríkjadali um áramót.

Eins og gildir um íslensku krónuna er til gengisvísitala fyrir Bandaríkjadal (e. U.S. Dollar Index) sem mælir verðgildi dollarsins á móti körfu gjaldmiðla helstu viðskiptalanda Bandaríkjanna. Alls hefur Bandaríkjadalur styrkst um 3,2% frá áramótum á móti þessari körfu.

Meðal þátta sem stutt hafa þessa styrkingu Bandaríkjadalsins er vaxtamunurinn. Þar er átt við mun á stýrivöxtum í viðkomandi landi og í sumum tilvikum einnig mun á ávöxtunarkröfu sambærilegra ríkisskuldabréfa í gjaldmiðlum viðkomandi landa eða gjaldmiðlasvæða. Annað sem stutt hefur við gengi Bandaríkjadals er að hann er af mörgum fjárfestum talinn tiltölulega öruggt skjól.

Þegar óvissa í alþjóðaviðskiptum eykst hafa fjárfestar tilhneigingu til að færa eignir sínar yfir í Bandaríkjadal. Líklegt er að áhyggjur vegna hugsanlegs viðskiptastríðs hafi orðið til þess að fjárfestar hafi í auknum mæli fært sig yfir í Bandaríkjadal síðustu mánuði.