Í ljósi þess að hrávöruverð heldur áfram að hækka á heimsmörkuðum og hagvöxtur mælist enn mikill bæði í Asíu og Evrópu er ekkert sem bendir til þess að niðursveiflan í Bandaríkjunum sé að smita útfrá sér en hinsvegar telja sumir sérfræðingar að veikleiki Bandaríkjadals muni á endanum sjá til þess.

Að sögn Hans Redeker, yfirmanns gjaldeyrismiðlunar hjá BNP Paribas í London, munu fjárfestar halda áfram að vera áhættusæknir á meðan að allt bendi til þess að niðursveiflan í Bandaríkjunum sé einangrað fyrirbrigði. Stöðugur straumur af jákvæðum hagtölum frá öðrum ríkjum en Bandaríkjunum styrkja menn í þeirri trú. Á þriðjudag var tilkynnt um að vísitala væntinga hafi mælst hærri en búist hafði verið við og þrátt fyrir að menn hafi ennþá áhyggjur af eftirspurn í japanska hagkerfinu benda nýjar hagtölur um smásölu frá Suður-Kóreu til þess að hagvöxtur á svæðinu sé enn kraftmikill.

Jafnvel samdrátturinn á fasteignamarkaðinum virðist ekki ætla að hafa áhrif yfir Atlantshafið eins og lengi var óttast um. Fasteignaverð fer hækkandi á Bretlandseyjum en 3,5% hækkun var á fasteignamarkaði milli mánaða - sú mesta í fimm ár. Og það er ekki bara fasteignir sem hækka á Bretlandi. Neysluvísitala hækkað í 3,1% úr 2,8% milli mánaða og hefur hækkunin gert að verkum að sterlingspundið hefur ekki verið hærra gagnvart Bandaríkjadal í tuttugu og sex ár þar sem að væntingar um að Englandsbanki haldi áfram að hækka vexti hafa styrkst til muna.

Sterk eftirspurn á heimsmarkaði endurspeglast einnig í hækkandi verði á gulli og öðrum málmum sem tryggir meðal annars að staða gjaldmiðla eins og kanadíska, ástralska og nýsjálenska dalsins ætti að haldast sterk gegn þeim bandaríska. George Sarvalos, gjaldeyrismiðlari hjá Deutsche Bank, spáir því að evran gæti farið yfir 1.366 dali á gjaldeyrismörkuðum og þar með slegið þriggja ára gamalt met gagnvart Bandaríkjadal. Sarvalos segir að aðstæður fyrir áframhaldandi styrkingu evrunnar séu mun hagstæðari nú en þegar metið var slegið. Horfurnar í efnahagsmálum Bandaríkjanna séu verri en þá og traust evrunnar hafi aukist. Hann bendir þó á að ekki séu allir á sama máli og því hætta fólgin í því að veðja á mikla áframhaldandi styrkingu evru gagnvart Bandaríkjadal. Stóra spurningin hljóti samt að vera hversu lengi Bandaríkjadalur geti haldið áfram að veikjast.

Redeker telur að ástandið á mörkuðum í dag líkist því sem gerðist á árunum 1990 og 1991. Hann telur að veik staða Bandaríkjadals muni gera það að verkum að hún muni á endanum smita veikleika bandaríska hagkerfisins til annarra ríkja. Radeker telur að um leið og veikleiki dalsins fari að endurspeglast í hagkerfum annarra ríkja muni áhættusækni breytast í áhættufælni og samfara auknum hræringum á mörkuðum muni vinda ofan af vaxtarmunarviðskiptum.