Gengi Bandaríkjadals gagnvart evru féll sjötta daginn í röð sem er lengsta samfellda fall frá því í apríl, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

"Samtök fasteignasala í Bandaríkjunum spáðu í gær auknum samdrætti í sölu íbúðarhúsnæðis á árinu auk þess sem fjárfestar vænta þess að stýrivaxtamunur milli evru og Bandaríkjadals muni minnka, bæði með lækkun í Bandaríkjunum og hækkun í Evrópu. Bandaríkjadalur hefur aldrei staðið eins veikt gagnvart evru. Lægst fór gengið í 1,3889 Bandaríkjadali," segir greiningardeildin.

Bloomberg hefur eftir sérfræðingum að sú skoðun sé ríkjandi á fjármálamörkuðum að seðlabanki Bandaríkjanna sé sá eini af stóru seðlabönkunum sem líklegur er til að lækka stýrivexti á næstunni.

"Væntingar um vaxtalækkunina hafa þegar komið fram í verðlagningu á markaði. Vextir á framvirkum samningum sýna að markaðsaðilar telja 72% líkur á að Seðlabanki Bandaríkjanna muni lækka stýrivexti um 50 punkta eða niður í 4,75%. Fyrir mánuði síðan voru væntingarnar um 25 punkta lækkun," segir greiningardeildin.