Lausafjárkrísan á fjármálamörkuðum og gjaldeyrismál munu verða helsta umræðuefnið á fundi seðlabankastjóra og fjármálaráðherra G7 iðnríkjanna sem hófst í Washington í gær. Hagsmunasamtök evrópskra fyrirtækja vilja að leiðtogar Frakklands, Ítalíu og Þýskalands þrýsti á aðgerðir til að styrkja gengi Bandaríkjadals gegn evrunnni. Í fyrradag stóð Bandaríkjadalurinn í sögulegu lágmarki gagnvart evrunni; hrunið á bandaríska fasteignamarkaðnum með undirmálslán hefur hrundið af stað óróleika og óvissu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, einkum vestanhafs; helstu seðlabankar heimsins hafa horfið frá vaxtahækkunarferli sínu; stjórnmálamenn beggja vegna Atlantsála hafa vaxandi áhyggjur af uppgangi ríkissfjárfestingarsjóða (e. sovereign wealth fund); og bæði Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) hafa fengið nýjan yfirmann. Sjá ítarlega umfjöllun Harðar Ægissonar í Viðskiptablaðinu.