Hátt settir yfirmenn innan Bandaríkjahers hafa lagt það til að herafli í Evrópu verði aukinn tímabundið og að hernaðaræfingum í álfunni verði fjölgað. The Wall Street Journal greinir frá.

Tillagan er lögð fram til að mæta aukinni ógn frá Rússlandi en að mati Bandaríkjahers er þetta nauðsynlegt til að hindra að átök brjótist út í álfunni en þeir segja að árásargirni sem sé ekki svarað muni leiða til meiri árásargirni.

NATO ríkin hafa þegar rætt um að auka við viðbúnað í ríkjum sem eiga landamæri að Rússlandi, og að auka við herdeildir sem eru undir stjórn NATO.

Bandaríkjaher er þegar með tvær herdeildir í Evrópu, með um það bil 7000 hermönnum. Rússland hefur verið að auka við og nýtímavæða herafla sinn undanfarið en sérfræðingar NATO benda sérstaklega á aukin umsvif rússneskra kafbáta.