Fjórir háttsettir öldungardeildarþingmenn repúblikana og demókrata kynntu á miðvikudaginn frumvarp sem miðar að því að beita Kínverja refsiaðgerðum fyrir að stunda ósanngjarna viðskiptahætti, einkum þegar kemur að gjaldeyrisstefnu þarlendra stjórnvalda.

Þingmennirnir eiga von á því að löggjöfin verði samþykkt af bandaríska þinginu síðar á þessu ári, þátt fyrir að Bandaríkjastjórn muni beita neitunarvaldi sínu, að því er fram kemur í frétt New York Times.

Bush stjórnin hefur nú þegar gefið til kynna að hún sé mótfallinn frumvarpinu, en það mun líkast til auka á spennu í samskiptum þjóðanna á sama tíma og fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Henry Paulson, hefur reynt að nota "strategískar viðræður" (e. strategic dialouge) til að þvinga fram breytingar á efnahagsstefnu Kínverja. Í frétt Wall Street Journal segir talsmaður fjármálaráðuneytisins, Ann Marie Hauser, að Bandaríkjastjórn deili sömu markmiðum og flutningsmenn frumvarpsins, þrátt fyrir að stjórnin telji slíka lagasetningu ekki vera réttu leiðina. "Okkar afstaða er sú að það sé árangursríkari leið að eiga í öflugum viðræðum við kínversk stjórnvöld og ná þannig að knýja þá til stefnubreytingar."

Frumvarpinu er ekki síst ætlað að þrýsta á Kínverja til að breyta gengi júansins gagnvart Bandaríkjadal, en flutningsmenn löggjafarinnar telja að kínversk stjórnvöld handstýri gengi gjaldmiðilsins í því augnamiði að gera kínverskar útflutningsvörur ódýrari á heimsmarkaði en ella. Í frétt Financial Times segir að frumvarpið myndi gera það að verkum að deilur þjóðanna um gjaldeyrismál færu fyrir Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO), þar sem Bandaríkjastjórn myndi neyðast til þess að meðhöndla deiluna á þann veg að um væri að ræða ósanngjarnar niðurgreiðslur kínverskra stjórnvalda til útflutningsfyrirtækja þar í landi.

Þrátt fyrir að gjaldmiðill Kínverja sé helsta skotmarkið í fyrirhugaðri löggjöf, þá er einnig kallað eftir því að Bandaríkjamenn geri breytingar á gjaldeyrisstefnu sinni. Ef frumvarpið verður að lögum myndi fjármálaráðuneytið þurfa að eiga í samstarfi við Seðlabanka Bandaríkjanna til að geta gripið inn í á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum þegar gengi gjaldmiðla annarra þjóða hefur orðið "bjagað" gagnvart Bandaríkjadal, eins og segir í frumvarpinu. Að auki myndi löggjöfin veita Bandaríkjaþingi meiri völd til að hafa áhrif á hlutverk fjármálaráðuneytisins í því ferli.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.