Fulltrúadeild bandaríska þingsins hefur neitað að lögfesta frumvarp um 700 milljarða dala björgunarhring sem kasta átti til fjármálakerfisins þar í landi. Atkvæðagreiðslu lauk þannig að 228 þingmenn kusu nei á meðan 205 kusu já.

Um tveir af hverjum þremur repúblikunum í þinginu neituðu að samþykkja frumvarpið og 95 demókratar ráðstöfuðu sínu atkvæði í neitun.

Eftir að í ljós kom að tillagan yrði felld hrundu hlutabréf á Wall Street.

Talsmaður Hvíta hússins sagði George Bush, forseta, vera mjög vonsvikinn með niðurstöðuna. Talsmaður fjármálaráðuneytisins sagði að Bush myndi funda með Henry Paulson, fjármálaráðherra, og seðlabankastjóranum Ben Bernanke, um hvað gera skuli í framhaldinu.