„Það er ennþá ekki ljóst hvernig flugi til Bandaríkjanna verður háttað á næstu misserum eða hvort Schengen opni nægjanlega fljótt til að koma farmiðasölu af stað fyrir sumarið. Stór hluti af umsvifum Icelandair snýst um fólksflutninga milli Norður-Ameríku og Evrópu og því yrði að endurraða sumaráætluninni ef samgöngur til Bandaríkjanna verða mjög takmarkaðar á næstu vertíð.“ Þetta segir Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, og bætir við að án Ameríkuflugs geti Icelandair gefið sér tíma í lengri flug til Evrópu og þá sótt á nýja áfangastaði.

Kristján segir að hann geti ímyndað sér að Icelandair fjölgi áfangastöðum sínum í Evrópu og fari jafnvel inn á markaði sem félagið hefur haldið sér frá, meðal annars vegna fluglengdar. Í því samhengi nefnir hann til að mynda Pólland sem hann segir einn stærsta markaðinn fyrir Íslandsflug, en að Icelandair hafi ekki lagt í samkeppni við Wizz Air þar.

Enn fremur segir Kristján að vísbendingar séu um sóknarfæri í Austurríki í ljósi þess hve þaðan koma hlutfallslega fáir ferðamenn til Íslands í samanburði við Sviss. Einnig var góður stígandi í flugi Wow air til Lyon í Frakklandi og það félag flutti hátt í tuttugu þúsund farþega til og frá borginni sumarið 2018. Icelandair hefur aftur á móti aðeins horft til Parísar.

„Þá má líka velta fyrir sér hvort Icelandair leggi í flug til Rómar og jafnvel tíðari ferðir á meginland Spánar. Dæmin sýna að þegar Íslandsflug hefur verið í boði frá þessum stöðum þá fjölgar þarlendum ferðamönnunum hér. Eina viðbótin hjá Icelandair næsta sumar er hins vegar Tenerife en markhópurinn þar eru aðeins Íslendingar á leiðinni á ströndina. Svo má ekki gleyma ferðafólki frá frændþjóðunum,“ segir Kristján og bætir við að Icelandair hafi verið duglegt í ferðum til minni borga í Noregi og Svíþjóð á árum áður.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .