Hækkanir urðu á Bandaríkjamarkaði í dag og enduðu helstu vísitölur í plús þegar mörkuðum var lokað nú síðdegis.

Hækkanirnar eru raktar til aðgerða bandarískra stjórnvalda. Olli það meðal annars hækkunum hjá Bank of America, American Express og General Motors, en félögin hækkuðu um rúm tíu af hundraði.

Bankar vestan hafs eru nú sagðir á höttunum eftir hugsanlegum kaupendum, eða meðeigendum til þess að styrkja stöðu sína.

Aðgerðir stjórnvalda hafa m.a. falist í því að bjarga tryggingarisanum AIG frá gjaldþroti en einnig hefur Seðlabanki Bandaríkjanna dælt talsverðu fé inn á markaði.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 4,9%, Dow Jones hækkaði um 3,78% og Standard og Pours hækkaði um 4%.

Olíuverð hækkaði í dag sem nemur 0,79% og kostaði olíutunnan 97,93 bandaríkjadali við lokun markaða.